top of page

Í orðastað Alfífu

Greinin birtist áður í Skírni árið 2004


Tröllkonan


Einn sumardag á fyrri hluta 11. aldar ferðast ríkur Dani, að nafni Sigurður Ákason, til Vindlands til þess að afla sér dýrgripa. Þegar þangað er komið býðst maður að nafni Jón til að vera túlkur fyrir hann og hafa milligöngu um kaup á gersemunum. Þeir eiga góð viðskipti og skilja síðan. Jón fer til frillu sinnar sem býr í föðurhúsum í dal nokkrum. Þegar þau eru komin í rekkju „varð gnýr mikill, því næst kom ógurleg rödd“ og er bóndinn gengur út sér hann „óþekkilega konu.“[1] Hún biður hann að gjalda sér skuld, annað hvort sjálfan sig eða gestinn. Jón heyrir þetta og vill forða sér ef hann má. Hann hleypur út um dyrnar og til sjávar og konan á eftir honum. Hann kemur að tjöldum Sigurðar og biður sér hjálpar. Sigurður hleypur á móti í tjalddyrnar, vopnaður sverði og skildi, en Jón hverfur inn í tjaldið. Konan kemur að tjaldinu og biður Sigurð að ganga úr dyrunum en hann vill það ekki. Hún leggur þá til hans skálm nokkurri og hann bregður fyrir sig skildinum. Lagið kemur á skjöldinn og steypist hún við. Sigurður slæmir til hennar sverðinu og heggur af henni höndina. Hún hleypur undan æpandi. Eftir það snýr hún aftur og „segir hann hafa mikinn sigur unnið.“[2] En hún leggur á Sigurð að hann megi aldrei framar sjá blóð. Sigurður snýr aftur til Danmerkur og er jafnan með Knúti konungi. Þá ber svo við að Alfífa, frilla konungs, segir honum að Sigurður hafi „sigur mikinn unnið” þó svo að það hafi farið leynt „og eigi vissu menn það, hví hún var þar vör við.“[3] Alfífa veit einnig að Sigurður má ekki blóð sjá. Konungur kveður það hins vegar vera ósatt og vill hún láta á reyna. Hún vekur sér blóð en Sigurði tekst að láta á engu bera. Þó urðu á tvímæli um þetta mál og leggur konungur á ráðin og kemur upp um Sigurð. Sigurður biður sér vægðar en fyrir áeggjan Alfífu rekur konungur hann úr landi. Sigurður fær síðan bót meina sinna fyrir náð Ólafs helga.


Þátt af Sigurði Ákasyni er að finna í svonefndri Helgisögu, einni gerð Ólafs sögu helga, sem varðveitt er í þrænsku handriti frá miðri 13. öld. Frásögnin hefur ennfremur varðveist í tveimur öðrum handritum af sögu Ólafs helga, í 13. aldar samsteypuritinu Flateyjarbók og í Tómasskinnu frá 14. öld. Bæði handritin eru íaukin köflum úr Lífssögu Ólafs eftir Styrmi Kárason, frá um 1210-1225, og gæti frásögnin af Sigurði vera ættuð þaðan sem og þáttur Helgisögunnar sem er af sama meiði.[4] Yfirleitt eru sögur af vættum og forynjuskap í Helgisögunni til að árétta helgi Ólafs, og svo mun einnig vera hér þar sem Alfífa virðist að ástæðulausu leggja fæð á hirðmann konungs. Sýnt er að Alfífa þekkir öll samskipti Sigurðar við tröllkonuna. Þetta er áréttað í frásögninni af Sigurði Ákasyni í Tómasskinnu: „þetta vissi hún af fornum göldrum“ og skömmu síðar mælir hún við konung og segir honum „hversu farið hafði með þeim tröllkonunni“.[5] Að auki er Alfífu kunnugt um áðurnefnt ráðabrugg konungs sem kom upp um Sigurð og átti að fara leynt, eins og segir í Flateyjarbók: „En eigi vissu þeir hví hún hafði fregið þetta því að þeir þóttust þetta bragð leynilega gert hafa með sér“.[6] Alfífa veit um alla atburði og má það stafa af fjölkynngi hennar en einnig kann það að benda til þess að hún hafi brugðið sér í tröllkonuham. Hvernig sem Alfífa er upplýst um atburði á Vindlandi þá er hún tröll af fjölkynngi sinni; Alfífa er flagð undir fögru skinni.



Hver er Alfífa?


Alfífu er einkum minnst í fornum sögum fyrir að vera barnsmóðir Knúts Sveinssonar og illa liðin konungsmóðir Norðmanna. Í enskum bókum ber hún nafnið Ælfgifu og er kennd við Northampton. Alfífa er af göfugum ættum og á einum stað er hún auknefnd hin ríka.[7] Hvergi er að finna stafkrók í heimildum um fæðingarár, fæðingarstað eða dánarár Alfífu og einungis er unnt að finna henni stað í tíma og rúmi með hliðsjón af ítarlegri frásögnum af föður hennar, barnsföður og sonum. Alfífa er dóttir Ælfhem jarls af Norðimbralandi, ýmist nefndur Álfrimur eða Álfrúnn í íslenskum frásögnum, og var hann mikill landeignamaður. Færri heimildir nefna móður hennar, Wulfrun, en hún mun hafa verið af norrænum uppruna.[8] Alfífa átti bræðurna Wulfheah og Ufegeat sem báðir voru blindaðir árið 1006, sama ár og faðir þeirra var drepinn.[9]


Alfífa var frilla Knúts konungs, sem var ýmist auknefndur hinn ríki eða gamli. Hann fæddist í Danmörku árið 998 og lést árið 1035. Hann var sonur Sveins tjúguskeggs Haraldssonar, Gormssonar. Í Knýtlinga sögu er sagt um Knút að hann „hefir verit ríkastr konungr ok víðlendastr á danska tungu.“[10] Knútur réð þremur þjóðlöndum, Danmörku eignaðist hann að erfð og England og Noreg með hernaði.[11] Knútur sat lengstum á Englandi og líklega hefur samband hans við Alfífu verið þáttur í að tryggja sér sess á valdastóli, með stuðningi frá valdamikilli ætt hennar.[12] Alfífa og Knútur eignuðust soninn Svein árið 1016 en ári síðar kvongaðist Knútur Emmu, dóttur hertogans af Normandí og ekkju Aðalráðs Englandskonungs. Knútur eignaðist þrjú börn enn, Harald hérafót, Hörða-Knút og Gunnhildi, en nokkur vafi leikur á móðerni Haralds, eins og komið verður að síðar. Emma drottning átti a.m.k. tvo syni frá fyrra hjónabandi[13] en Knútur konungr gaf konunganöfn sonum sínum, Haraldi í Englandi, Hörða-Knúti í Danmörku og Sveini í Noregi. Knútur hafði sett Svein Alfífuson til ríkis í Jómsborg en árið 1030 setti Knútur hann til valda í Noregi. Hann var bernskur að aldri, aðeins 14 ára gamall, og hafði því Alfífa mest landstjórn. Sveinn konungur setti ný lög í Noregi um marga hluti og til þess einkum að innheimta meira fé af Norðmönnum. Þegar lögin voru birt fyrir alþýðu þá tóku menn þeim illa: „Brátt hÄfðu menn ámæli mikit til Sveins konungs, ok kenndu menn mest þó Álfífu allt þat, er í móti skapi þótti.“[14] Alfífa og sonur hennar ríktu í Noregi nokkra vetur „ok var þá hÄrmuligt undir því ríki at búa, bæði með ófrelsi ok með óárani, er fólkit lifði meir við búfjár mat en manna“.[15] Þegar Alfífa og Sveinn fréttu af áformum Magnúsar góða um að ná völdum í Noregi vildu þau fylkja liði en Norðmenn voru mjög tregir til. Danskir höfðingjar ráðlögðu Sveini að leita sér liðs í Danmörku hjá Hörða-Knúti bróður sínum og gamla Knúti föður sínum, sem og hann gerði. Knútur dó sama ár, 1035, og þá lagði Magnús Noreg undir sig orrustulaust. Sveinn dó ári síðar, 1036. Eftir það segir nokkuð af viðskiptum Alfífu og Magnúsar góða, eins og síðar verður komið að, en síðan hverfur Alfífa af sjónarsviðinu og eru örlög hennar ókunn eftir það.



Flagð undir fögru skinni


Útliti Alfífu er aðeins lýst í bókum sagnaritarans Saxa málspaka en þar segir að hún sé ægifögur auk þess sem hún sé yndisleg frilla.[16] Þekktari eru þó mun ljótari lýsing á Alfífu, sem lýtur að innræti hennar og atferli. Í Morkinskinnu, sem er talin vera frá því um 1220[17], er hún sögð vond og grimm manneskja.[18] Í framrás sögunnar er rennt stoðum undir þessa óvægnu lýsingu: Eftir að Magnús nær undir sig Noregi kemur hann í höll Hörða-Knúts konungs í Danaveldi. Þar er Alfífa og fagnar hún Magnúsi vel. Hún kveðst allan sóma vilja veita honum, skenkir honum í glas og biður hann að drekka. Magnús konungur er var um sig og vill að Hörða-Knútur drekki fyrst og að honum skuli fyrst alla þjónustu veita. Þá fær Alfífa Hörða-Knúti hornið og drekkur hann af. Við það missir hann málið, rekur upp óp og fær síðan bana. „Og sýndust nú þessi svik Alfifu við Magnús konung því að hún hafði honum ætlað þenna dauðadrykk, en hún var þegar öll í braut og mátti henni því ekki hegna.“[19]


Frásögn þessi er öll með næsta ævintýralegum blæ. Eftir þetta ódæði hverfur Alfífa um sinn af sjónarsviði Morkinskinnu. Næst þegar hún birtist er það í frásögn af ótrúlegum atburðum sem eiga sér hvergi stoð nema í heimi ævintýranna. Magnús konungur átti systur er Úlfhildur hét og „fríð kona var hún sýnum og forvitra að hyggju.“ Ótta hét stórauðugur hertogi á Saxlandi og var hann allt í senn frændi keisarans, fóstri og aldavinur. Fyrir hvatningu keisarans vill Ótta freista þess að biðja sér Úlfhildar og siglir til Noregs. Þegar hann kemur í Víkina er Magnús hins vegar á burtu og hittir hann Alfífu þar fyrir, sem sætir furðu, en engar skýringar er að finna í sögunni á veru hennar þar. Alfífa tekur vel á móti hertoganum og býr honum veislu. Þegar Ótta spyr hana hvort systir Magnúsar sé nærstödd þá segir hún svo vera og er hann biður að fá að sjá hana mælir hún því ekki í mót. Einn daginn lætur Alfífa búa dóttur sína vel með „allri fegurð og prýði“ og þegar hertoginn sest að snæðingi situr mærin næst honum „og skorti eigi á henni gull og gersemar og því líkast sem goð væri sett á stalla.“ Ótta virðir hana fyrir sér og ræðir við hana og finnst honum „að hvorki sé forkunnlegt orðafar hennar né viska og ekki svo fríð sýnum sem hann hugði til og honum var frá sagt.“ Óttu finnst kvonfangið ekki verðugt en Alfífa fullyrðir að hún sé systir Magnúsar. Ótta snýr aftur heim og segir keisara frá vonbrigðum sínum en keisarinn hvetur hann annað sinn til þess að fara og biðja konunnar því þó að hún sé ekki álitleg þá sé það engu að síður sæmdarráð að fá þennan kost fyrir mægða sakir. Hertoginn fer þá aftur til Noregs en hittir nú fyrir Magnús sjálfan og biður hann að sýna sér systur sína. Þau hittast og vænkast nú hagur hertogans því þessi kona sýnist honum vera langt umfram hina fyrri að viti og vænleik og sér hann við brögðum Alfífu.[20]


Í Morkinskinnu eru engin deili sögð á dóttur Alfífu önnur en að hún er ekki samfeðra Sveini konungi. Dótturinnar er hvergi annars staðar getið í heimildum og má af því ráða að hún sé tilbúningur einn, sóttur í heim ævintýra. Minnið um vondu stjúpuna, sem dulbýr dóttur sína til þess að blekkja konungsson og telja honum trú um að hún sé sannlega hans prúða brúðarefni, er alþekkt. Skemmst er að minnast sögunnar af Mjaðveigu Mánadóttur, hinnar íslensku Öskubusku, og ævintýranna út af Trístanssögu.[21] Líkari frásögn Morkinskinnu er þó sagan af Líneik og Laufeyju.[22] Þar segir frá kóngssyni sem siglir um langa vegu til þess að biðja kóngsdóttur sér til handa sem hann hefur aldrei augum litið en heyrt að hún sé „afbragð allra annara kvenna að fríðleik og atgjörvi.“ Tröllið Blávör fer með hlutverk vondu stjúpunnar og veit af fjölkynngi sinni um komu hans. Hún býr sig og dóttur sína „fegursta skrauti.“ Kóngsson spyr um Líneik og stjúpan segir hana vera meyna sem hún leiði við hönd sér. „Konungsson lætur sér fátt um finnast og segist hafa ætlað að hún mundi miklu fríðari mær verið hafa.“ Stjúpan skýrir það svo kóngssyni líkar, hann fær hennar og flytur með sér heim. Áður en að brúðkaupsdagurinn rennur upp koma svikin í ljós; Blávör er hegnt, konungborna fólkið fær réttan hlut sinn og allir lifa ánægðir til æviloka.


Ævintýri á borð við söguna af Líneik og Laufeyju kann vel að liggja frásögn Morkinskinnu til grundvallar. Í því ljósi má jafnframt geta sér þess til að ástæðan fyrir veru Alfífu í híbýlum Magnúsar sé að hún viti erindi Óttu af fjölkynngi sinni, rétt eins og tröllið Blávör veit af komu kóngssonar. Það er ekki laust við að frásagnir af Alfífu dragi víðar nokkurn dám af stjúpusögum ævintýranna. Ekki er langt seilst þar sem að minnið um vondu stjúpuna er þekkt um allan heim og það hefur átt verulegum vinsældum að fagna hér á landi. Á 12. öld getur Oddur munkur Snorrason um stjúpmæðrasögur í Ólafs sögu Tryggvasonar og í Sverris sögu eftir Karl Jónsson ábóta er minnst á stjúpmæðrasköp í „fornum sögum,“[23] Af þessum frásögnum má ráða að minnið eigi sér djúpar rætur í íslenskri munnmælahefð. Elsta heimildin sem varðveitir stjúpuminnið telst þó vera kvæðið Grógaldur sem er jafnan talið vera frá 13. öld og síðan er minnið að finna í fornaldarsögunum Hrólfs sögu kraka og Hjálmþérs sögu og Ölvers.[24] Í kjölfarið fylgja fleiri fornaldarsögur og því næst yngri sögur og heill flokkur ævintýra.[25]


Vondar stjúpmæður eru iðulega af útlendu bergi brotnar, enda finnast þær gjarna á afskekktum stöðum. Þær heilla menn með fegurð sinni og kurteisi og um leið og kóngur ber drottningarefni sitt augum verður hann einatt gagntekinn af ást til hennar. Stjúpur reynast oftast vera göldróttar og í íslensku sögunum reynast þær auk þess flestar hin verstu flögð en Einar Ól. Sveinsson telur það mega hafa verið fundið upp hér á landi.[26] Hins vegar segir hann oft vera erfitt að gera skýran greinarmun á norninni og tröllinu í stjúpunni, enda sé skammt þar á milli, þar sem tröll ævintýranna séu einatt göldrótt. Vondar stjúpur eru ávallt á höttunum eftir ríkidæmi og völdum. Þær eira engu til þess að fá vilja sínum framgengt og bitnar grimmd þeirra og vergirni ekki hvað síst á stjúpbörnunum. En öll ævintýri enda vel og svo á einnig við um sögurnar af vondu stjúpunni, eða hvað? Konungborna fólkið hlýtur farsæl málalok en hinni útlensku stjúpu er hvergi hlíft.


Alfífa er af erlendum uppruna og ókonungborin. Hún gætir ríkis í fjarveru konungs, ásamt syni sínum. Þar þykir hún öllu spilla og aflar sér mikilla óvinsælda. Í þessu hlutverki er Alfífa sem sniðin að stakki vondu stjúpunnar og má gera því skóna að hin sívinsæla og alþekkta saga um vondu stjúpuna liggi til grundvallar ótrúlegum sögum af Alfífu, t.d. þegar hún heillar Knút, eins og síðar verður komið að, þegar hún er orðuð við tröllkonuna á Vindlandi, þegar hún fyrirkemur konungssyni og síðast en ekki síst þegar hún reynir að gifta dóttur sína vonbiðli konungsdóttur. Hins vegar er það athyglisvert að Alfífu verður aldrei refsað fyrir ódæði sín, eins og bíður allra vondra stjúpna. Hún hreinlega hverfur af sjónarsviðinu, eins og frá segir í Sigurðar þætti Ákasonar, og í Morkinskinnu er beinlínis kvartað undan því að hún fái enga hegningu: „en hún var þegar öll í braut og mátti henni því ekki hegna.“[27] Engar sögur fara af því hvernig Alfífa lýkur ævi sinni, hvorki sannar né lognar, hún er ekki einu sinni látin hljóta makleg málagjöld.[28] Hvers vegna skyldi það vera?


Kvenhatur


Alfífa kemur lítillega við Danasögu Saxa þar sem segir frá fjandskap Ólafs helga og Knúts ríka:


Á sama tíma varð Knútur hrifinn af ástkonu Ólafs, þeirri ægifögru frú Alfífu, og tældi hana. Og hvort sem ástæðan var sú að hann missti hina yndislegu frillu eða að Knútur hafði svikið hann um landshluta í Englandi, sem hann hafði lofað honum, lét Ólafur þessa persónulega móðgun Knúts hafa áhrif á hernaðarbandalag þeirra á vígvellinum. Að herferð lokinni hélt hann reiður og sorgmæddur aftur til Noregs, þar eð hann sá að hann var í fullum rétti til þess að svíkja þann mann sem hafði komið svo gjörsamlega ósiðsamlega og ranglega fram við hann.[29]


Það er athyglisvert að þar sem frásögninni af ósæmilegri hegðun Knúts við Alfífu sleppir dregur Saxi úr og leggur að jöfnu við landabrask. Af þessu má ráða að litlu skiptir hvað veldur reiði og sorg Ólafs því að í báðum tilvikum verður hann fyrir eignaskerðingu. Hvergi er Alfífa spurð álits og hvergi er minnst á líðan hennar. Hún er aðeins viðfang í samskiptum höfðingjanna og þarf það ekki að koma á óvart í ljósi ríkjandi viðhorfa til kvenna á miðöldum. Geta má þess að litlu fyrr en Saxi skrifar Danasögu sína, frá síðari hluta 12. aldar, setur Þorlákur Þórhallsson biskup í Skálholti skriftaboð sem innihéldu m.a. ströng viðurlög við hórdómi. Það sem vekur athygli í þessu sambandi við boð Þorláks um skriftahald er að konur eru nær einatt undanskildar refsingum; þær voru álitnar óvirkar.[30] Þessa viðhorfs gætir enn þegar komið er fram á 13. öld, eins og merkja má af lagasafninuGrágás, sem er talið vera frá síðari hluta aldarinnar.[31] Þar kemur m.a. fram að í legorðsmálum var sakaraðilinn fyrst og fremst lögráðandi fórnarlambsins, eiginmaður eða ættingi.[32] Ágætt dæmi þessa er að finna í Knýtlinga sögu, sem er talin vera skrifuð á árunum 1235-1300, þar sem segir frá ástamálum Knúts konungs. Einhverju sinni í danskri veislu sér hann svo fallega konu að hann þóttist varla séð hafa fríðari kvenmann. Hann biður ræðismann sinn að búa svo um að þessi kona, sem reynist vera prestfrú, verði í hvílu hans um nóttina og þorir enginn að mæla í móti vilja hans. Um kvöldið þegar konungur gerir sig líklegan til amorsleikja þá tekst henni að vanda um fyrir honum með því að höfða til ábyrgðarstöðu hans og hlutverks í þjóðfélaginu sem fyrirmyndar og fulltrúa fyrir aðra menn í góðum siðum og trúarbrögðum. Knútur lætur sannfærast og finnur sér annan rekkjunaut fyrir nóttina. Um morguninn biður konungur prest afsökunar á framferði sínu við eiginkonu hans og færir honum vinargjöf en aldrei lætur hann svo lítið að biðja konuna fyrirgefningar.[33]


Birgit Strand hefur fjallað um viðhorf til kvenna í Danasögu Saxa og segir hún að sú breyting sem sjá megi á hlutverki norrænna kvenna við trúskiptin endurspeglist í frásögn Saxa:


Det antages allmänt, att den nordiska kvinnans roll i samhället förändrades i och med kristendomens införande, då kyrkans passiva kvinnoideal kom att undantränga och ersätta hednatidens aktiva. I Gesta Danorum avspeglas en sådan förändring mycket tydligt, men viktigt att framhålla är att Saxo alltjämt tycks hysa förkärlek för den aktiva, man-lika kvinnan, d.v.s. så länge hon håller sig borta från politiska sammanhang och endast så länge hon självklart underordnar sig mannens vilja och behov.[34]


Í bókum Saxa er velvilji til hinnar virku konu ef hún lætur stjórnmál afskiptalaus og lýtur stjórn og þörfum karlmannsins. Alfífa er stórlát og metnaðargjörn kona sem hefur sig í frammi. Í Danasögu gegnir hún hins vegar hlutverki þolanda, hún elur af sér mikinn fjandskap en er engu að síður óvirk persóna og vanvirt.[35]


Í enskum heimildum gætir einnig vanvirðingar þar sem fjallað er um móðerni Haralds hérafótar Knútssonar. Í Saxaannálum kemur fram óvissa um móðerni hans. Í tveimur gerðum annálsins, C og D, er haft eftir Haraldi að hann sé sonur Alfífu (sem kennd er við Northampton), þó það væri ósatt.[36] Í E gerð annálsins er ekki kveðið jafn fast að orði en þar segir að sumir menn segi Harald vera son Knúts og Alfífu, dóttur Ælfhem jarls, en mörgum þyki það harðla ótrúlegt.[37]


Flestir fræðimenn eru samdóma um að Alfífa hafi verið móðir Haralds þrátt fyrir að heimildir dragi það víðar í efa.[38] Bjarni Guðnason telur þessa missögn kunna að „stafa m.a. af því, að í Saxaannálum (E-gerð: 1052) er Emma nefnd Ælfgiue Ymma, en Ælfgifu var titill drottningar.“[39] Í Saxaannálum er þó Alfífa jafnan kennd við bernskuheimili sitt og fer því vart á milli mála um hvora konungamóðurina ræðir. Miles W. Campbell bendir á hatramma deilu konungamæðranna Alfífu og Emmu um erfðarétt. Hann telur söguburði um Harald kunna að vera til marks um gremju og afbrýðisemi eiginkonu og móður til að gera ætterni Haralds tortryggilegt og þar með rétt hans til krúnunnar.[40] Campbell bendir m.a. á latneska ritið Encomium Emmae Reginae Daciae et Angliae, sem er skrifað af munki sem var uppi samtíma Knúti og Emmu og er ritið til heiðurs henni. Þar segir um Harald:


Haraldur . . . sem er ranglega talinn vera sonur ákveðinnar frillu . . . Knúts konungs; staðreyndin er hins vegar sú að flestir telja hinn sama Harald hafa verið tekinn á laun af barnssæng þjónustustúlku og lagðan inn í svefnherbergi frillunnar, sem var lasin. Og þykir þessi frásögn fara nær sannleikanum.[41]


Knútur hélt frillu í blóra við trúboð kirkjunnar og telur M. K. Lawson að Alfífa hafi verið frilla Knúts bæði áður og einhvern tíma eftir að hann giftist Emmu. Engu að síður virðast kennimenn hafa litið framhjá þessu syndsamlega líferni konungs og segir Lawson að frillulíferni kunni á þessum tíma að hafa verið með líku móti á Englandi og tíðkaðist meðal germana, þar sem frillan gegndi viðurkenndri stöðu og börn hennar áttu arfsrétt.[42] Eftir sem áður eru Englendingar mjög andsnúnir þessari skipan mála, eins og fram kemur í sögu Englandskonunga eftir munkinn William frá Malmesbury (um 1090-1143), og er eindreginn vilji þeirra að fá einhvern af sonum Emmu drottningar fyrir konung, annað hvort Hörða-Knút eða annan hvorn sona Aðalráðs:


Frá því herrans ári 1036 hélt Haraldur, sem samkvæmt orðrómi var sonur Knúts með dóttur Ælfhelm jarls, krúnunni í fjögur ár og fjóra mánuði. Hann var kosinn af Dönum og Lundúnabúum sem vegna mikilla samskipta voru um þetta leyti nánast búnir að tileinka sér háttu barbara. Englendingar voru þessu lengi vel andsnúnir þar eð þeir vildu fremur fá fyrir konung annan hvorn af sonum Aðalráðs, sem bjuggu í Normandí, eða Hörða-Knút, son Knúts og Emmu, sem dvaldi á þessum tíma í Danmörku.[43]


Það má gera því skóna að þótt Knútur hafi getað farið sínu fram og haldið frillu í krafti embættis síns þá hafi kennimenn litið þetta líferni hornauga. A.m.k. tvö af ofangreindum tilvitnuðum ritum voru sett saman innan klausturveggja og ætla má að þar hafi boðskapur kirkjunnar átt hljómgrunn, þó svo að almenningur hafi almennt látið sér fátt um finnast. Söguburður um ætterni Haralds hérafótar virðist einkum vera til þess að grafa undan rétti hans til konungsstólsins og ætla má að þessar efasemdir hefðu ekki náð slíkum hæðum ef Alfífa hefði verið drottning og sannlega gift Knúti. Alfífa er frilla og það er handhægt vopn gegn henni, hvort sem er í höndum kennimanna eða þeirra sem eru henni andsnúnir eins og sýnir sig hvað best í deilum hennar við norska bændur.

Alfífa mætir mótlæti víðar en á Englandi og finnst Norðmönnum þeir efalítið vanvirtir þegar þeir standa frammi fyrir því að þurfa að hlýða frillu og hennar ungæðislega frillusyni. Þetta leynir sér ekki í ræðu Einars þambarskelfis þegar hann stígur á stokk og talar af miklum þunga til Norðmanna, eins og greinir frá í Fagurskinnu:


Ekki var ek vinr Óláfs konungs, en þó váru Þrændir ekki þá kaupmenn, er þeir seldu konung sinn ok tóku við meri ok fyl með. Konungr þessi kann ekki mæla, en móðir hans vill illt eitt ok má auk yfrit . . . Megu menn heldr heima bíða vanréttis, en sœkja allir í einn stað ok hlýða þar einnar konu orðum.[44]


Einar þambarskelfir er einn af mestu höfðingjum Noregs en ræða hans er furðu djörf um yfirboðara sinn. Hann vanvirðir Alfífu og níðir; níðorðið meri var notað um lausláta konu, á borð við hórkonu eða pútu, og fyl er afkvæmi hennar, þ.e. merarsonur. Það merkti því að sama skapi hórkonusonur eða pútusonur.[45] Slík ókvæðisorð voru litin afar alvarlegum augum á miðöldum. Í Grágás kemur fram að sá sem gerðist sekur um að hrakyrða annan mann gat átt yfir höfði sér fjörbaugsgarð, þ.e. þriggja ára útlegð úr landi.[46] Einar vanvirðir Alfífu ekki einungis fyrir stöðu hennar heldur einnig og miklu fremur fyrir að vera kona. Lokaorðin endurspegla lítilsvirðinguna í garð kvenna: Ekki ber að hlusta á orð konu. Að þessum orðum slepptum er Alfífa enn niðurlægð og virt að vettugi þó svo að hún eigi margt eftir ósagt: „Gekk þá Einarr af þinginu, ok svá allr múgr fór heim af þessu þingi, ok þótti þó Álfífu margt vantalat.“[47] Alfífa er yfirgefin án þess að fá að tala sínu máli. Rödd hennar er þögguð niður.[48]


Harðort ræða Einars þambarskelfis á sér forsögu sem er vert að gera grein fyrir í þessu samhengi. Einar er kvæntur inn í mestu valdaætt Noregs; eiginkona hans er Bergljót Hákonardóttir ríka Hlaðajarls og bræður hennar eru jarlarnir Sveinn og Eiríkur. Einar er sömuleiðis tengdur Knúti ríka fjölskylduböndum þar eð fyrrnefndur Eiríkur jarl átti Gyðu, systur Knúts, en sonur þeirra var Hákon jarl Eiríksson sem réð Noregi fram að stjórnartíð Alfífu og Sveins.[49] Snorri Sturluson segir svo frá að þegar Hákon jarl hafði tekið við ríki í Noregi hafi Einar mágur hans ráðist til lags við hann. Á þeim tíma voru Einar og Knútur ríki í miklum kærleikum og hét Knútur því að


Einarr skyldi vera mestr ok gÄfgastr ótiginna manna í Nóregi, meðan hans vald stœði yfir landi. En þat lét hann fylgja, at honum þótti Einarr bazt fallinn til að bera tígnarnafn í Nóregi, ef eigi væri jarls við kostr, eða sonr hans, Eindriði, fyrir ættar sakir hans. Þau heit virðusk Einari mikils ok hét þar í mót trúnaði sínum. Hófsk þá af nýju hÄfðingskapr Einars.[50]


Næst segir af Einari er hann spyr fráfall Hákonar jarls. Honum þykir þeir Eindriði feðgar vera best komnir að þeim eignum og lausafé er jarl hafði átt. Minnist hann þá heita Knúts ríka og fer þegar á fund hans á Englandi. Knútur fagnar honum vel en þegar Einar ber upp erindi sitt segir konungur allt á annan veg en áður því að hann hafi heitið Sveini syni sínum ríki í Noregi. Hann biður þó Einar að halda við sig vináttu og býður honum nafnbætur og land að léni, meira en aðrir lendir menn. Einar heldur aftur heim til Noregs við svo búið og „minntisk þess, er Knútur hafði heitit honum jarldómi yfir Nóregi, ok svá þat, at konungr efndi ekki heit sín.“[51] Einar gleymir ekki því sem þeim Knúti fór á milli en hann geymir hnjóðsyrðin fyrir frillu hans og unglingsson, þau liggja mun betur við höggi.



Alfífa liggur vel við höggi


Alfífu konungamóður er kennt um allt sem miður fer. Vanþóknun Norðmanna stafar einkum af frekum lögum nýrrar konungsstjórnar og er Alfífu kennt um, enda fer hún með forræði yfir drengnum. En eru lögin runnin frá hennar brjósti? Í Ólafs sögu helga segir um hina illræmdu lagasetningu að hún var „eptir því sett, sem lÄg váru í DanmÄrk, en sum miklu frekari.“[52] Löggjöfin er einkum ætluð til þess að auðga yfirkonunginn: Í Knýtlinga sögu greinir svo frá Knúti konungi að hann hafi tekið „miklu meira í skatta ok skyldir á hverju ári af þrim þjóðlÄndum en hverr sá annarra, er hafði eitt konungsríki fyrir at ráða, ok þó þat með, at England er auðgast at lausafé allra Norðrlanda.“[53] Af þessu má skilja að Knútur hafi ráðið löggjöf mæðginanna í Noregi enda sér hann vart hag sinn í því að láta ríkið eftirlitslaust í hendur konu og unglingspilti. Það má velta því fyrir sér hvort Knútur hafi einmitt séð hag sinn í því að eftirláta þeim ríkið þar eð ætla mætti að bæði væru þau meðfærileg og létu vel að stjórn. Viðhorf Norðmanna koma skýrt fram í ræðu Einars þambarskelfis; Sveinn sonur Alfífu er rétt á unglingsaldri og því vart fullþroska karlmaður og Alfífa er kvenmaður og telst því vart fullburða manneskja og því síður hæfur stjórnandi. Alfífa er sem lítið peð í pólitísku valdatafli karlmanna. Það má ætla að Einar hefði orðið mun tregari í taumi við stjórnvölinn en mæðginin sem í einu og öllu lúta valdboði Knúts.


Alfífu er hvergi borin vel sagan, ef hennar er þá yfirleitt getið. Í elstu heimildum er hún nánast virt að vettugi og aðeins nefnd þar sem um ræðir móðerni Haralds hérafótar, í kjaftasögustíl, eins og fram kemur í samtímaheimildunum Saxaannálum og Encomium Emmae svo og riti William frá Malmesbury sem er lítið eitt yngri frásögn. Um og eftir 1200 verður meiri fyrirferð á Alfífu í heimildum. Henni er kennd harðstjórn og ofríki í riti Theodoricusar, frá um 1180, og í Ágripi, frá um 1200, er ófrelsi og óáran nefnt í sama mund og nafn hennar. Þegar á líður 13. öldina hlýtur Alfífa æ verri útreið í heimildum; frásagnir af henni gerast mjög ýkjukenndar og víða gætir fyrirlitningar á henni. Í þættinum af Sigurði Ákasyni úr Ólafs sögu hins helga, sem hefur varðveist í Flateyjarbók, er Alfífa orðuð við tröll og á svipuðum tíma hlýtur hún afar slæma meðferð í Fagurskinnu, þar sem Einar þambarskelfir vanvirðir hana og níðir. Í Morkinskinnu, frá byrjun 13. aldar, er Alfífa sögð illa innrætt. Þar er lýst tilræði hennar við Magnús góða sem verður síðan Hörða-Knúti að bana og þar segir ennfremur frá dóttur hennar, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum, og brögðum þeirra mæðgna til þess að villa um fyrir vonbiðli systur Magnúsar góða. Öllu raunsærri og hófstilltari lýsingar er að finna hjá sagnariturunum Snorra Sturlusyni og hinum danska Saxa málspaka. Hins vegar skín í gegn fyrirlitningin á kvenpersónunni Alfífu. Snorri greinir frá óvinsældum hennar meðal alþýðu og lýsir niðurlægingu hennar í samskiptum við Einar þambarskelfi. Í bókum Saxa er Alfífa sömuleiðis vanvirt og einungis sýnd sem óvirkt viðfang í stríðsleik karla. Í þrettándu aldar handriti af Ólafs sögu helga, svonefndri Helgisögu, er endurtekinn þátturinn af Sigurði Ákasyni og greinir þar enn frá flagðinu Alfífu.[54]


Greina má ákveðna stígandi í meðferð sagnaritara á Alfífu. Í fyrstu er hún nánast virt að vettugi; hún gegnir aðeins því hlutverki að vera frilla Knúts konungs og hugsanleg móðurnefna Haralds hérafótar. Þegar farið er að gefa Alfífu einhvern gaum í heimildum er hún í hlutverki harðstjórans og henni er kennt um alla óáran og vesöld í ríkinu. Á eftir fylgja fyllri frásagnir og ýkjukenndari um Alfífu; hún er orðuð við tröll þjóðtrúarinnar og ber svip af vondu stjúpu ævintýranna[55] samfara því að vera vanvirt og fyrirlitin í samskiptum hennar við karlmenn; raunar kveður svo rammt að lítilsvirðingunni í garð Alfífu að hvergi er hirt um að geta um endalok hennar og því síður hlýtur hún refsingu, ekki fremur en konurnar í skriftaboðum Þorláks Þórhallssonar biskups.


Því fer fjarri að Alfífa fari með hefðbundið kvenhlutverk og þess vegna hlýtur hún að þjóna hlutverki hins illa í sögunum. Henni er eignað allt sem miður fer og m.a.s. er harðæri aldarinnar kennt við nafn hennar: „þá hér er yfir oss kom ríki Alfivo og sú hin illa öld“.[56] Áður hefur tímabil verið kennt við kvenmann og þarf það ekki að koma á óvart að í Fagurskinnu er Alfífu líkt við Gunnhildi konungamóður, þar sem segir að „svá margt illt stóð af hennar ráðum í Nóregi, at menn jÄfnuðu þessu ríki við Gunnhildar Äld, er verst hafði verit áðr í Nóregi.“[57] Þessar stórbrotnu konur eiga sitthvað sameiginlegt.[58] Þær eru stórlátar og metnaðargjarnar konungamæður sem þar að auki eru útlendingar í konungsríki Norðmanna. Fyrst og síðast eru þær þó konur sem standa utangarðs í samfélagi sem lýtur lögmálum karla. Þá er sem hversdagslegar mannlýsingar hafi vart þótt duga til að lýsa þessum aðsópsmiklu, óhlýðnu konum og hafi þær því verið skreyttar ævintýraminnum. Lýsingar á konunum báðum draga vissulega nokkurn dám af kynjum ævintýranna enda er ekki langt seilst þar sem í heimi undra, sem liggur fyrir austan sól og sunnan mána, er fjallað nóg um kóngafólk og samskipti þess við þegnana og í honum er jafnan nóg af nornaskap, illþýði ýmiss konar og óþjóðum.


Meðferðin á þessum sterku kvenpersónum í fornsögunum er engan veginn einsdæmi og eru mýmörg dæmi þess að konur sem eitthvað hefur kveðið að hafi þurft að sæta slæmri útreið; þær hafa tíðum verið málsvarar hins illa í sögunum og verið úthlutað hlutverki skassins, og þegar verst lætur tröllkonunnar. Íslensk þjóðtrú hefur að geyma fjölda ótrúlegra sagna af raunverulegu fólki sem var þekkt af einhverri fjölkynngi. Landnámabók getur Þuríðar Arngeirsdóttur og segir að „Þjórsdælir vildu grýta hana fyrir fjÄlkynngi ok trÄllskap” og hefur þjóðsagnageymdin gert úr henni voðalega skessu og mannætu.[59] Í þjóðsögunni af Gissuri frá Lækjarbotnum segir af skessunni í Stórugröf sem kallast á við systur sína hinum megin við Þjórsá og biður hana um að fá sér pott til að sjóða Gissur í.[60] Í Missögn af Gissuri á Botnum er svo skýrt frá tilurð þessarar skessu: ,,Í Búrfelli upp af Þjórsárdal heitir Tröllkonugröf; á þar að vera grafin Þuríður Arngeirsdóttir er Landnáma getur um að „Þjórsárdælir vildu berja grjóti í hel“.“[61] Og enn greinir frá Þuríði í sögunni Flagðkonur við Þjórsá en þar segir svo frá að „aldrei hafi tröllkona búið í Þjórsárdal eða Búrfelli, önnur en Þuríður.”[62] Þuríður er sögð vera tröllkona af fjölkynngi sinni en þegar fram líða tímar er ekki lengur gerður greinarmunur á henni, sveitakonunni sem vissi lengra nefi sínu eða stórvöxnum mannætukonum þjóðtrúar.


Ekki þarf að ferðast um heim þjóðtrúar eða skáldskapar til þess að finna sagnir af tröllkonum og mannætum. Í norsku fornlögunum kristinrétti Sverris konungs er m.a. að finna ákvæði frá lokum 12. aldar sem lýtur að refsingu konu sem sýnir sig í að vera tröllkona, þ.e. fjölkunnug, eða mannæta:


En ef það er kennt konu að hún sé tröllkona eða mannæta þá skal mæla á hendur henni úr húsum þrem og sé það áður héraðsfleygt. En ef hún verður að því sönn þá skal færa hana á sæ út og höggva á hrygg. En ef hún kveður við því nei þá skal hún hafa fyrir sér guðs skírslur, vígt vatn og ketil, og taka þar í. Þá er vel er hún verður skír. En ef mælir úr einu húsi að hún sé tröll og mannæta þá er það rógur og fjölmæli, ef hún verður um það skír.[63]


Konur máttu hafa sig hægar því annars gátu þær átt von á því að verða vændar um tröllskap og ónáttúrulega hegðun. Orðræðan hefur ávallt verið afar öflugt valdatæki; oftast stjórnað af karlmönnum og í höndum þeirra enn ein leið til þess að hemja konuna og hegna henni. Allt fram til þessa dags hefur sterka konan mátt þola harða útreið og niðurlægingu. Ágætt dæmi frá nútímanum er meðferðin á kvenréttindakonum 20. aldar. Skemmst er að minnast almenningsviðhorfa til Rauðsokkahreyfingarinnar. Ein af Rauðsokkunum, Helga Sigurjónsdóttir, segir svo frá að þær hafi nánast orðið þjóðsaga í lifandi lífi þar eð almannarómur var undrafljótur að gera sér mynd af þeim:


Rauðsokka var karlkona sem hataði karlmenn og vildi ekkert hafa með börn að gera. Hún sinnti ekki húsverkum og væri hún gift neyddi hún veslings eiginmanninn til að sjá um heimilið. Hún var ósmekkleg í klæðaburði, mussukona og lopadrusla, gekk á flatbotna skóm óburstuðum, snyrti sig ekki lét hár sitt vaxa og greiddi það sjaldan. Til að kóróna allt saman var þetta óánægð kona og ófullnægð bæði sálarlega og kynferðislega.[64]


Kona sem hefur sig í frammi hefur ætíð farið með hlutverk andstæðingsins, hún beygir sig ekki undir vald feðraveldisins og því stafar samfélaginu ógn af henni: í viðjum fjölskyldunnar er henni úthlutað hlutverki vondu stjúpunnar þar sem hún sinnir ekki skyldum sínum sem eiginkona og móðir og vill fyrirkoma fjölskyldu sinni; hún hlýtur þann dóm að verða að hrikalegri og holdmikilli tröllkonu sem berar sköp sín undan stuttum stakki í von um að linjulegur mannræfill verði á vegi hennar svo að hún megi svala fýsnum sínum.




Aftanmálsgreinar

[1] Olafs saga hins helga, 51 (texti tilvitnaðra Ólafs sagna er færður til nútímastafsetningar en orðmyndir eru látnar halda sér). [2] sama rit, 52. [3] sama rit, sama stað. [4] Helgisagan ásamt Lífssögu Ólafs eftir Styrmi Kárason, sem nú er glötuð, hafa verið meginheimildir Snorra Sturlusonar er hann setti saman sögur af Ólafi helga. Sjá frekari umfjöllun: Ármann Jakobsson: Í leit að konungi, 21-22, 37; Snorri Sturluson: Heimskringla II, v-cxii. [5] Fornmanna sögur, eptir gömlum handritum V, 184-185. [6] Flateyjarbok II, 139. [7] Danakonunga sÄgur, 121. [8] Campbell, Miles W: Queen Emma and Ælfgifu of Northampton, 68-69. [9] The Anglo-Saxon Chronicle, 136 [10] Danakonunga sÄgur, 123. [11] Knútur var konungur fyrir Danmörku eftir fráfall bróður síns í sautján ár, 1018-35, hann ríkti á Englandi í nítján ár, 1016-35, og í Noregi í sjö ár, 1028-35. Danakonunga sÄgur, CVIII. [12] Lawson, M.K.: Cnut, 47, 131. [13] Játmundar járnsíðu, eða hins sterka (Edmund) og Játvarðar góða (Edward) er einkum minnst fyrir að hafa setið að völdum á Englandi en Snorri Sturluson nefnir til fjóra bræður: „Synir þeira váru þeir Eaðmundr ok Eatvarðr inn góði, Eatvígr ok Eatgeirr.“ Snorri Sturluson: Heimskringla II, 26. [14] Snorri Sturluson: Heimskringla II, 401. [15] Ágrip af Nóregskonunga sÄgum. Fagrskinna - Nóregs konunga tal, 31. [16] " specie delectatus “ og "concubinæ facibus“. Saxo Grammaticus, 286 (þýðing greinarhöfundar). [17] Ármann Jakobsson: Staður í nýjum heimi, 11. [18] Morkinskinna, 18 (texti tilvitnaðrar Morkinskinnu er færður til nútímastafsetningar en orðmyndir eru látnar halda sér). [19] sama rit, 33-34. [20] Morkinskinna, 39-41. [21] Sjá t.d. Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II, 299-317; IV, 486-495. Ævintýrin eiga sér djúpar rætur í sagnahefð Íslendinga; Einar Ól. Sveinsson hefur bent á að tilbrigðin við ævintýrið af Trístan og Ísól, og þar með ævintýrið í þeirri mynd sem við þekkjum það, séu frá þeim tíma er þau voru kunn og vinsæl af Trístanssögu. Einar Ól. Sveinsson: Um íslenzkar þjóðsögur, 226. r. r [22] Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II, 318-323. [23] Saga Óláfs Tryggvasonar, 17; Konungasögur. Sagaer om Sverre og hans efterfølgere, 7. [24] Einar Ól. Sveinsson: Um íslenzkar þjóðsögur, 217-221. Sjá einning formála Aðalheiðar Guðmundsdóttur að Úlfhams sögu, clxviii. [25] Einar Ól. tekur minnið til umfjöllunar í Verz. Isl. Märchenvarianten, nr. 556 III (bls. 71, o.áfr.). [26] Einar Ól. Sveinsson: Um íslenzkar þjóðsögur, 223. [27] Morkinskinna, 33-34. [28] Hins vegar greinir frá háðulegum dauðdaga Sveins Alfífusonar í Flateyjarbók. Það setur mikinn hlátur að Játvarði konungi eftir að honum birtist sýn: „Danakonungur bjóst með ótalligan fjölda skipa að herja á vort land og sem hann skyldi upp stíga í skipið af einum báti þá féll hann á kaf og drukknaði að réttum guðs dómi.“ Danakonungur er ekki nefndur á nafn en haft er eftir vitrasta lögmanni Íslendinga að þessi konungur hafi verið Sveinn sonur Knúts ríka og Alfífu. Flateyjarbok III, 464 (tilvitnunin er færð til nútímastafsetningar en orðmyndir eru látnar halda sér). [29]„Eodem tempore Alvivam ab Olavo adamatam Kanutus, eximia matronæ specie delectatus, stupro petiit. Igitur Olavus, sive quia concubinæ facibus spoliatus, sive quia promissa Angliæ parte per Kanutum fraudatus fuerat, privatam offensam publicæ militiæ prætulit, peractisque stipendiis, ira pariter ac dolore instinctus Norvagiam rediit, non incongruum eius desertorem agere ratus, a quo plena turpitudinis iniuria vexatus fuerat.“ Saxo Grammaticus: Saxonis Gesta Danorum, 286 (þýðing greinarhöfundar). [30] Íslenzkt fornbréfasafn I, 237-244. Sjá frekari umfjöllun: Sveinbjörn Rafnsson: Skriftaboð Þorláks biskups. [31] Grágás, xii. [32] sama rit, 125. [33] Danakonunga sÄgur, 149-150. [34] Strand, Birgit: Kvinnor och män i Gesta Danorum, 269. [35] sama rit, 336, 342. [36] “And Harold, who said that he was son of Cnut and the other Ælfgifu [D: and the Northampton Ælfgifu] – although it was not true.” The Anglo-Saxon Chronicle, 158, 159. [37] “Some men said of Harold that he was son of King Cnut and Ælfgifu, daughter of Ealdorman Ælfhelm, but to many men, it seemed quite unbelievable.” The Anglo-Saxon Chronicle, 161. [38] T.d. segir Snorri Sturluson Harald vera son Emmu. Snorri Sturluson: Heimskringla III, 32. Í Fagurskinnu segir svo frá Haraldi að hann sé sonur Knúts og „Emmu Ríkharðsdóttur.“ Ágrip af Nóregskonunga sÄgum. Fagrskinna - Nóregs konunga tal, 202. Sjá einnig yfirlit William frá Malmesbury í Gesta regvm Anglorvm II, 178-179. [39] Danakonunga sÄgur, 121 (neðanmálsgrein 1). [40] Campbell, Miles W.: Queen Emma and Ælfgifu of Northampton, 69. [41]„Haroldum, quem esse filium falsa aestimatione asseritur cuiusdam eiusdem regis Cnutonis concubinae; plurimorum uero assertio eundem Haroldum perhibet furtim fuisse subreptum parturienti ancillae, inpositum autem camerae languentis concubinae, quod ueratius credi potest.“ Encomium Emmae Reginae, 38-41 (þýðing greinarhöfundar). [42] Lawson, M.K.: Cnut, 132. Sjá einnig: David Herlihy. Hann segir m.a. að litið hafi verið á frillulíferni sem e.k. óformlegan hjúskap hjá germönum; frillan hafði ekki rétt á við eiginkonuna en hún gegndi engu að síður viðurkenndri stöðu í samfélaginu, þó í blóra við kirkjuna. David Herlihy: Medieval Households, 50. Jenny Jochens telur ennfremur að norskir konungar og höfðingjar, allt frá tíð Haralds hárfagra (um 860-930) til Hákons gamla Hákonarsonar (1217-63), hafi getað átt margar ástkonur. Það var hagur allra; þ.e. fyrir konunginn að eignast marga arftaka og fyrir konurnar að verða hugsanlegar konungamæður. Jenny Jochens. The Impact of Christianity on Sexuality and Marriage in the Kings' sagas, 531-550. [43]„Anno Dominicae incarnationis millesimo tricesimo sexto Haroldus, quem fama filium Cnutonis ex filia Elfelmi comitis loquebatur, regnauit annis quattuor et mensibus totidem. Elegerunt eum Dani et Lundoniae ciues, qui iam pene in barbarorum mores propter frequentem conuictum transierant. Angli diu obstiterunt, magis unum ex filiis Egelredi, qui in Normannia morabantur, uel Hardacnutum filium Cnutonis ex Emma, qui tunc in Danemarkia erat, regem habere uolentes“. William frá Malmesbury: Gesta Regvm Anglorvm, I, 334 (þýðing greinarhöfundar). [44] Ágrip af Nóregskonunga sÄgum. Fagrskinna - Nóregs konunga tal, 206-207. [45] Almqvist, Bo. Norrön niddiktning, 145-146. [46] Grágás, 271-272. [47] Ágrip af Nóregskonunga sÄgum. Fagrskinna - Nóregs konunga tal, 207. [48] Alfífa mætir einnig slíku viðmóti í frásögn Snorra Sturlusonar þegar hún ber brigður á helgi Ólafs: „Þá svarar Einarr þambarskelfir, bað hana þegja ok valði henni mÄrg hÄrð orð.“ Snorri Sturluson: Heimskringla II, 404-405. [49] Snorri Sturluson: Heimskringla I, 340-341; II, 27. [50] Snorri Sturluson: Heimskringla II, 307. [51] sama rit, 402. [52] sama rit, 399. [53] Danakonunga sÄgur, 124. [54] Í elstu sögu Ólafs helga, sem er talin vera frá 1160-85, er Alfífa hvergi nefnd enda hafa aðeins varðveist fáein brot úr sögunni. [55] Hér má nefna að ef minnið um vondu stjúpuna liggur Morkinskinnu til grundvallar, þar sem um Alfífu ræðir, þá kann minnið að vera fyrr á ferð í heimildum en áður hefur verið talið. [56] Morkinskinna, bls. 100. [57] Ágrip af Nóregskonunga sÄgum. Fagrskinna - Nóregs konunga tal, 202. [58] Sjá frekari umfjöllun um Gunnhildi: Jóna Guðbjörg Torfadóttir: Gunnhildur and the male whores. [59] Íslendingabók. Landnámabók, 287. [60] Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I, 153. [61] sama rit, 154. [62] Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri III, 234. [63] Norges gamle Love, I, 434 (tilvitnunin er færð til nútímastafsetningar en orðmyndir eru látnar halda sér). [64] Gestur Guðmundsson, Kristín Ólafsdóttir: '68 Hugarflug úr viðjum vanans, 242-243. Annað dæmi sérstakt má nefna sem varðar Bríeti Bjarnhéðinsdóttur (1856-1940) en hún er öllum kunn fyrir sína framsæknu forystu í íslenskri kvennabaráttu, þó einkum fyrir að hafa stofnað og veitt formennsku Kvenréttindafélagi Íslands. Í þessu ljósi er merkileg frásögn sonardóttur Bríetar og nöfnu, Bríetar Héðinsdóttur, af því þegar fyrsti götuvaltarinn í Reykjavík var skírður í höfuðið á kvenréttindakonunni. Nafngiftin varð til af því að Bríet kom því til leiðar að hann yrði keyptur þegar hún sat í bæjarstjórn og var þetta saklaust grín bæjarbúa. Hins vegar horfir öðru vísi við „þegar út kemur námsbók um sögu Reykjavíkur árið 1987 og þessi gamli valtarabrandari er það ítarlegasta sem sagt er um störf nokkurrar konu.“ Bríet Héðinsdóttir: Strá í hreiðrið, 325; Lýður Björnsson: Við flóann byggðist borg, 23.



Heimildir


Almqvist, Bo. 1965-1974. Norrön niddiktning, traditionshistoriska studier i versmagi.

(Nordiska texter och undersökningar, 23). Stokkhólmi.

The Anglo-Saxon Chronicle. 1996. Útg. og þýð. M. J. Swanton. Lundúnum.

Ágrip af Nóregskonunga sÄgum. Fagrskinna - Nóregs konunga tal. 1985. Útg. Bjarni

Einarsson (Íslenzk fornrit 29). Reykjavík.

Ármann Jakobsson. 1997. Í leit að konungi. Konungsmynd íslenskra konungasagna.

Reykjavík.

___. 2002. Staður í nýjum heimi. Konungasagan Morkinskinna. Reykjavík.

Bríet Héðinsdóttir. 1988. Strá í hreiðrið. Bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur byggð á

bréfum hennar. Reykjavík.

Campbell, Miles W. Queen Emma and Ælfgifu of Northampton: Canute the Great´s

Women. Mediaeval Scandinavia. 4: 66-79.

Damsholt, Nanna. 1985. Kvindebilledet i dansk højmiddelalder. Kaupmannahöfn.

Danakonunga sÄgur. 1982. Útg. Bjarni Guðnason (Íslenzk fornrit 35). Reykjavík.

Dronke, Ursula. 1981. The role of sexual themes in Njáls saga. Lundúnum.

Einar Ól. Sveinsson. 1929. Verzeichnis isländischer Märchenvarianten, mit einer

einleitenden Untersuchung. (FF communications, 83). Helsinki.

___ . 1940. Um íslenzkar þjóðsögur. Reykjavík.

Encomium Emmae Reginae. 1949. Útg. Alistar Campbell. Lundúnum

Flateyjarbok.. En samling af norske konge-sagaer med indskudte mindre fortællinger om

begivenheder i og undenfor Norge samt annaler I-III. 1860-1868. Útg. C.R.Unger og

Guðbrandur Vigfússon. Kria.

Fornmanna sögur, eptir gömlum handritum V. 1830. Útgefnar að tilhlutun hins

konungliga norræna fornfræða felags. Kaupmannahöfn.

Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir. 1987. '68, hugarflug úr viðjum vanans.

Reykjavík.

Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. 1992. Útg. Gunnar Karlsson, Kristján

Sveinsson og Mörður Árnason. Reykjavík.

Herlihy, David. 1985. Medieval Households. Cambridge.

Íslendingabók.. Landnámabók. 1968. Útg. Jakob Benediktsson (Íslenzk fornrit 1).

Reykjavík.

Íslenzkt fornbréfasafn I. 1857-1876. Útg. Hið íslenzka bókmentafélag. Kaupmannahöfn.

Jochens, Jenny. 1985. The Impact of Christianity on Sexuality and Marriage in the

Kings' sagas. The sixth International Saga Conference 28.7.-2.8. 1985: 531-550.

Jón Árnason. 1961-68. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I-VI. Útg. Árni Böðvarsson og

Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík.

Jóna Guðbjörg Torfadóttir. 2002. Gunnhildur and the male whores. Óprentaður

fyrirlestur, fluttur á ráðstefnunni Sögur og samfélög sem haldin var í Borgarnesi 5.- 9.

september 2002. [Textann er að finna á vefslóðinni http://w210.ub.uni-

tuebingen.de/portal/sagas].

Konunga sögur. Sagaer om Sverre og hans efterfølgere. 1873. Útg. C.R. Unger.

Kristjaníu.

Lawson, M.K. 1993. Cnut. The Danes in England in the early eleventh century.

Lundúnum og New York.

Lýður Björnsson. 1986 „Við flóann byggðist borg“; saga Reykjavíkur. Reykjavík.

Morkinskinna. 1932. Útg. Finnur Jónsson. Kaupmannahöfn.

Norges gamle Love indtil 1387 I-V.1846-95. Útg. R. Keyser, P. A. Munch, G.

Storm og E. Hertzberg. Kristjaníu.

Oddur Snorrason. 1932. Saga Óláfs Tryggvasonar. Útg. Finnur Jónsson.

Kaupmannahöfn.

Olafs saga hins helga. Efter pergamenthaandskrift i Uppsala Universitetsbibliotek,

Delagardieske samling nr. 8II. 1922. Útg. Oscar Albert Johnsen. Kristjaníu.

Ólafs saga helga: Otte brudstykker af den ældste saga om Olav den hellige. 1893.

Útg. Gustav Storm. Kristjaníu.

Saxo Grammaticus. 1931. Saxonis Gesta Danorum. I. Útg. J. Olrik og H. Ræder.

Kaupmannahöfn.

Snorri Sturluson. 1979. Heimskringla I-III. Útg. Bjarni Aðalbjarnarson (Íslenzk fornrit

26-28). Reykjavík.

Strand, Birgit. 1980. Kvinnor och man i Gesta Danorum. Gautaborg.

Sveinbjörn Rafnsson. 1982. „Skriftaboð Þorláks biskups“. Gripla V: 77-115.

Úlfhams saga. 2001. Útg. Aðalheiður Guðmundsdóttir. (Stofnun Árna Magnússonar á

Íslandi, rit 53). Reykjavík.

William of Malmesbury. 1998-1999. Gesta Regvm Anglorvm. The History of the English

Kings. I- II. Útg. R. M. Thomson. Oxford.

bottom of page